Gísli Gíslason
Ég er kvæntur Bergrósu Guðmundsdóttur frá Neskaupstað. Af fyrra hjónabandi á ég tvö börn: Eyleif Ósk og Gísla Veigar, fædd 1996 og 1998. Ég starfa hjá umhverfissviði Reykjavíkurborgar.
Norðfirðingafélagið
Sá sem er fæddur eða hefur alist upp á Norðfirði verður alltaf Norðfirðingur, hvar í veröldinni sem hann er búsettur. Norðfirðingafélagið er kjörinn vettvangur fyrir þá sem vilja halda tryggð við heimahagana og er það von mín að flestir kjósi svo.
11.07.2010
Eistnaflug í Neskaupstað
Nú um helgina var haldin hátíðin Eistnaflug í Neskaupstað. Eistnaflug er tónlistarhátíð sem haldin er í Egilsbúð í Neskaupstað aðra helgina í júlí ár hvert. Rokk í þyngri kantinum er í hávegum haft á hátíðinni en nær allur skali rokktónlistar þó spannaður og fjölbreytt dagskrá í boði fyrir rokkáhugamenn. Hátíðin hefur haft það orð á sér að vera árshátíð eða uppskeruhátíð rokkarans og hefur hún eingöngu hlotið jálvæða umræðu í fjölmiðlum. Hún er nú orðin fastur liður í tónlistarlífi Austurlands og þungamiðja rokktónleikahalds á Íslandi. Það er okkur kappsmál að viðhalda því orðspori sem Eistnaflug hefur getið sér: aðalrokkhátíð landsins, þar sem allt fer fram í bróðerni og vinskap.
Eistnaflug á sögu sína að rekja aftur til ársins 2005. Stefáni Magnússyni, eða Stebba hressa eins og flestir þekkja hann sem, leiddist rokkleysið eftir að hafa flutt til Neskaupstaðar. Hann vildi þungarokk og partí og flutti fjallið til Múhameðs; skipulagði tónleika með 14 hljómsveitum og bauð vinum sínum til Neskaupstaðar í lok ágúst. Um 50 manns borguðu sig inn, partí var haldið heima hjá Stebba og svo sváfu allir í félagsmiðstöðinni.
Árið eftir voru tónleikarnir haldnir aðra helgina í júlí og sú hefð hefur haldist síðan þá. Um 300 manns mættu og fjöldi hljómsveita var svipaður og árið áður. Spiluðu þá meðal annarra Innvortis, Potentiam og Dr. Gunni – og því ljóst að Eistnaflug hefur frá upphafi verið fjölbreytt hátíð og ekki einskorðuð við harðasta þungarokk.
Hátíðin hélt áfram að stækka og dafna. Árið 2007 voru Eistnaflug einir best sóttu þungarokkstónleikar ársins. Fjöldi hljómsveita var umtalsvert meiri en hafði verið, eða hátt í 40 talsins. Það var þetta ár sem Eistnaflug varð „frægt“. Þó hátíðin væri stór í sniðum og fjöldi gesta tvöfalt meiri en árið áður gekk allt vel og hátíðin fór fram í sama bróðerni og á sömu vinalegu nótum og þegar gestir voru aðeins nokkrir tugir.
Ljóst var að Eistnaflug var komið til að vera. Árið 2008 flugu eistun sem aldrei fyrr og allir rokkarar vissu um hvað verið var að tala þegar einhver sagði „Eistnaflug“. 800 manns mættu og tók hátíðin nokkrum stakkaskiptum. Í fyrsta skipti spilaði erlend hljómsveit á hátíðinni, Contradiktion frá Þýskalandi. Einnig spiluðu Ham í fyrsta skipti og trylltu lýðinn. Sett var 18 ára aldurstakmark á hátíðina og stóð tónleikahald nú í þrjá daga í stað tveggja. Það var því nóg nýtt að gerast eins og við höfum einsett okkur: að bjóða sífellt upp á eitthvað nýtt en halda þó þeim ramma sem allir þekkja sem gamla, góða Eistnaflug.
Árið 2009 var áframhaldandi þróun. Í þetta skiptið voru erlendar sveitir tvær, hin þýska Actress og Tyrant frá Svíþjóð. 30 íslenskar sveitir sýndu þeim erlendu hvernig ætti að gera þetta og var stemmningin í bænum ólýsanleg. Uppselt var í fyrsta skipti og ekki er ólíklegt en að næturgestum Neskaupstaðar hafi fjölgað um þúsund manns þessa helgi. Við létum útbúa Eistnaflugsboli og þeir seldust upp eins og skot, þannig að ljóst er að sá siður er kominn til að vera.
Fyrir hátíðina í ár færum við okkur svo á enn hærra plan og flytjum til landsins eitt af flaggskipum þungarokksins, sjálfa Napalm Death. Hin íslensk/norska sveit Fortíð er einnig væntanleg og rjóminn af íslensku þungarokki eins og það leggur sig. Það stefnir hraðbyri í að það verði uppselt aftur á hátíðina og mun nú öll aðstaða verða bætt enn frekar. Má til dæmis nefna að tjaldsvæði verður afmarkað og verður þar gæsla á öllum tímum sólarhringsins, gæsla og dyravarsla í Egilsbúð verður hert, hljóðkerfi og ljósabúnaður bættur enn frekar og stuðið, rokkið og skemmtunin enn geðveikari en nokkru sinni áður.

fengið af www.eistnaflug.is