stjorn@nordfirdingafelagid.is     822-1709
   
Leturstćrđ
Félagiđ er líka međ facebókarsíđu - Norđfirđingafélagiđ í Reykjavík
1974: Dagur sem enginn gleymir
Kristján J. Kristjánsson
Kristján J. Kristjánsson

Föstudagurinn 20. desember 1974 líður Norðfirðingum seint úr minni. Þá féllu tvö stór snjóflóð á athafnarsvæðið innan við byggðina á Norðfirði með þeim afleiðingum að 12 manns fórust og atvinnulíf bæjarins lamaðist að mestu. Samantektin hér var að stofni til birt í Fréttablaðinu réttum 30 árum eftir þennan hörmungaratburð.

Greinarhöfundur vinnur nú að ítarlegri gagnaöflun og eru þeir sem búa yfir athyglisverðum upplýsingum beðnir að hafa samband í síma 662-6080 eða senda upplýsingar á netfangið kk@skrefumframar.is. Þeir sem eiga myndir skömmu fyrir eða eftir snjóflóðin, og eru tilbúnir að leyfa birtingu þeirra, eru jafnframt góðfúslega beðnir að senda þær á kk@skrefumframar.is eða hafa samband við greinarhöfund.

Atburđarrásin

Janúarmánuður 1974 var mjög umhleypingasamur. Skiptust á hlýindi og frost svo snjór fraus frá láglendi og upp í efstu fjallabrúnir. Í febrúar kom norðanstórhríð og varð úr mikið fannfergi á Norður- og Vesturlandi. Slík blanda bíður snjóflóðahættu heim og í febrúar féllu mörg snjóflóð á Vestur-, Norður- og Austurlandi. Töluverðar skemmdir urðu á mannvirkjum, einkum raflínum, en  ekkert manntjón.

Vetur konungur var snemma á ferðinni haustið '74 og í kringum 20. september snjóaði mikið á austanverðu landinu. Um mánaðamótin október - nóvember kom hlýindakafli, með miklum rigningum, og hvarf þá allur snjór af láglendi en fönn varð eftir í giljaskörðum og fjallatoppar voru alhvítir. Eftir þennan hlýindakafla tók að frysta á ný og í byrjun desember fór að snjóa aftur. Á tímabilinu 13. til 20. desember kyngdi niður snjó á Austurlandi og í kjölfarið tóku snjóflóð að falla. Fimmtudaginn 19. og föstudaginn 20. desember féllu snjóflóð úr flestum eða öllum fjöllum á mið-Austurlandi. Níu ára gamall drengur lokaðist inni í fjárhúsi sem varð fyrir snjóflóði þann 19. desember á Seyðisfirði en foreldrum hans tókst að grafa hann úr rústunum. Föstudaginn 20. desember var þokkalegasta veður í byggð á Norðfirði en mikill fannburður. Dimm él gengu yfir en að mestu logn og bjart á milli hryðja. Norðfirðingar voru komnir í jólaskapið og margt fólk í bænum enda var starfsfólk frystihússins, stærsta vinnustað bæjarins, komið í jólafrí. Að öllu jöfnu hefðu á annað hundrað manns átt að vera við störf í frystihúsi og bræðslu en voru aðeins um 20 þennan örlagadag. 

Flóðin falla

Alls féllu átta snjóflóð á Norðfirði 20. desember. Þar af tvö mannskæð sem náðu í sjó fram og lögðu helstu vinnustaði bæjarins í rúst. Voru þetta mannskæðustu snjóflóð sem fallið höfðu á Íslandi síðan 1919 er þrjú flóð á Siglufirði tóku 18 mannslíf.

Fyrra mannskaðaflóðið 1974, hið innra, kom úr giljum ofan við fiskimjölsbræðsluna og féll þegar klukkuna vantaði 13 mínútur í tvö eftir hádegi. Tók það m.a. í sundur raflínu svo rafmagnslaust varð í bænum og það var það fyrsta sem bæjarbúar urðu varir við. Þetta flóð tók fimm mannslíf og eyðileggingarmáttur þess var yfirþyrmandi.

Síðara flóðið, hið ytra, kom úr Miðstrandaskarði um tuttugu mínútum síðar og í því fórust sjö manns. Á meðal mannvirkja sem urðu fyrir síðara flóðinu var bifreiðaverkstæði, steypustöð og íbúðarhúsið Máni en það var ysta byggingin sem lennti í flóðinu. Í risi hússins var stödd ung kona, Rósa M. Sigursteinsdóttir, og eins árs dóttir hennar, Sigrún Eva Karlsdóttir. Á hæðinni fyrir neðan voru Þórstína Bjartmarsdóttir og synir hennar tveir, Ágúst, átta ára, og Björn Hrannar, þriggja ára, en þau bjuggu öll á hæðinni. Á sömu hæð var stödd Elsa Sæný Gísladóttir en þar var hún við vinnu á skrifstofu steypustöðvarinnar. Í kjallara Mána var einn maður, Hákon Jónsson.

Er flóðið skall á Mána rifnaði húsið af grunni og brotnaði í smátt, að undanskildu risinu sem barst um 80 metra með flóðinu. Rósa og dóttir hennar komust lífs af úr flóðinu en þau öll fjögur sem voru á hæðinni undir risinu fórust. Hákon sakaði ekki og skreið hann upp úr kjallaranum er flóðið var farið hjá.Talið er að alls hafi 25 manns lent í flóðunum tveimur. Þar af fórust 12 en 13 var bjargað eða náðu að bjarga sér af eigin rammleik.

Fyrstu aðgerðir

Fréttin um fyrra flóðið barst með eldingarhraða um bæinn og Almannavarnir Neskaupstaðar voru þegar kallaðar saman og Almannavarnaráð ríkisins samræmdi fljótlega aðgerðir frá Reykjavík. Í ljós kom að engin neyðaráætlun vegna náttúruhamfara var til fyrir Neskaupstað, frekar en önnur byggðarlög á Austfjörðum, en engu að síður fór björgunarstarf mjög fljótt í gang. Ætttingjar og vinir þeirra sem saknað var hlupu á milli verslana og vinnustaða í bænum í þeirri von að þar væri þá að finna. Sumir fundust, en ekki allir, og eru margir Norðfirðingar til frásagna um örvæntingafulla leit fólks að ástvinum.

Aðkoman að flóðasvæðunum var hrikaleg og í fjögurra dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu 22. desember segir: „Eins og sprengja hafi fallið á bæinn“. Með þeim fyrstu sem komu að innra flóðinu voru starfsmenn í saltfiskverkun Síldarvinnslunar en hún var til húsa skammt innan við flóðið.

Í fyrstu var talin hætta á mikilli ammoníakmengun frá frystihúsinu og því var brugðið á það ráð að safna saman öllum tiltækum gasgrímum á höfuðborgarsvæðinu og koma þeim um borð í flugvél Landhelgisgæslunnar. Var ætlunin að varpa þeim úr flugvélinni yfir Neskaupstað. Horfið var hins vegar frá því þar sem talið var að hávaðinn frá flugvélinni gæti valdið fleiri snjóflóðum og var allt flug yfir bæinn bannað. Flugbrautin á Egilsstöðum reyndist ekki tiltæk vegna fannfergis og því fóru gasgrímurnar aldrei austur. Síðar kom í ljós að ammoníakmengunin var minni en menn höfðu óttast.

Björgunarstarfið

Fyrstu 12 tímana eftir að flóðin féllu sáu heimamenn á Norðfirði alfarið um björgunarstörf og héldu allir vinnufærir menn á flóðasvæðin. Einkum var leitað með stikum og mokað með rekum í flóðunum en vinnuvélum beitt þar sem það var talið þorandi. Einnig fór fram mikil leit á sjónum út af flóðasvæðunum en samkvæmt sjónarvottum var talið að síðara flóðið hafi borist um 400 metra út á fjörðinn.

Um klukkan 2 um nóttina fengu Norðfirðingar fyrstu aðstoðina þegar hópur sjálfboðaliða kom með báti frá Eskifirði. Leystu Eskfirðingarnir af örþreytta heimamenn sem höfðu unnið að björgunarstörfum frá því flóðin féllu. Síðar bættust við björgunarflokkar frá Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og víðar. Strax á fyrstu 12 tímunum er talið að um 150 heimamenn hafi unnið að björgunarstörfum og með aðkomumönnum hafi fjöldi björgunarmanna verið 250 til 300 daginn eftir. Seyðfirðingar buðu fram aðstoð sína en Norðfirðingar töldu ekki fært að þiggja það góða boð þar sem hætta var á snjóflóðum á Seyðisfirði. Fjölmargir aðrir buðu fram aðstoð. Eimskipafélag Íslands lánaði strax þrjú skip til að flytja björgunarmenn og búnað til Neskaupstaðar og bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum bauð fram allan þann tækjabúnað sem tiltækur var í Eyjum og notaður hafði verið í tengslum við eldgosið þar árið áður. 

Á fyrstu 12 tímunum fundust níu látnir, fimm voru grafnir lifandi úr flóðunum og fjögurra var saknað. Þegar 20 klukkustundir voru liðnar frá flóðunum fannst einn til viðbótar á lífi en þá voru margir búnir að gefa upp alla von um að fleiri fyndust með lífsmarki. Nokkrum klukkustundum síðar fannst enn eitt lík og var þá tala látinna komin í 10 og tveggja var saknað. Þrátt fyrir mikla leit á landi og sjó tókst aldrei að finna lík þeirra tveggja sem saknað var.

Eitt af því sem torveldaði leit og björgun í fyrstu var að í flóðunum eyðilögðust tvær spennistöðvar með þeim afleiðingum að rafmagnslaust varð með öllu á flóðasvæðunum. Því þurftu björgunarmenn að notast við lýsingu frá bátum, vinnuvélum og vasaljósum.

Endurreisn í harmskugga

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, vann mikið og gott starf við öflun og skráningu gagna tengdum snjóflóðunum og í skýrslu sem hann tók saman um flóðin segir hann: „Mönnum er ljóst eftir þessa atburði, að við verðum að láta okkur lærast að búa saman við snjóinn af meiri varfærni og tillitssemi við eðli hans en tíðkuð hefur verið í landinu til þessa. Þar á fjöldi byggða samleið með Neskaupstað, og að skipulagi snjóflóðavarna þarf að vinna rólega og yfirvegað á næstu árum.“

Með samheldni og stórhug, og stuðningi ríkisins og fleiri aðila, hófu Norðfirðingar uppbyggingarstarf af krafti strax og nýtt ár gekk í garð. Starfsemi hófst á ný þann 20. mars í frystihúsinu en ákveðið var að reisa aðra fiskimjölsverksmiðju á nýju hafnarsvæði fyrir botni Norðfjarðar. Tók hún til starfa í febrúarmánuði 1976.

Hin miklu sár sem flóðin ollu á svo litlu samfélagi sem Neskaupstaður var, gróa seint að fullu. Þann 30. janúar fór fram í Egilsbúð, félagsheimili bæjarins, útför hinna 10 sem fundust látnir og minningarathöfn um þá tvo sem ekki fundust. Um þá tregafullu athöfn, sem fram fór fyrir fullu húsi, skrifaði Hjörleifur Guttormsson árið 1975: „Sú stund gleymist engum viðstöddum, þar sem bæjarbúar sátu þreyttir en óbugaðir með harm í huga. Sár þeirra, sem misstu sína nánustu í snjóflóðunum, eru enn ógróin, og samfélagið innan fjallahringsins við Norðfjörð mun lengi líða fyrir það högg, sem náttúruöflin greiddu byggðinni í dimmu og ofsafengnu skammdegi. Samhugur þjóðarinnar, heimsókn forsætisráðherra og þingmanna Austurlands á slysstað, svo og fébætur á tjóni og stuðningur í ýmsu formi, jafnvel handan um höf, hafa hins vegar aukið mönnum kjark og hvatt til dáða og athafna við endurreisn atvinnutækja og annars, sem féll í rúst á síðasta vetri.“

Helstu heimildir: Ýmis rit og gögn tekin saman af Hjörleifi Guttormssyni. - Snjóflóðasaga Neskaupstaðar, Svanborg H. Haraldsdóttir. - Skriðuföll og snjóflóð, þriðja bindi eftir Ólaf Jónsson, Sigurjón Rist og Jóhannes Sigvaldason. - Dagblöð frá desember 1974 - Viðtöl