Laugardagskaffi
Fyrsta laugardag í mánuði hittumst við í Kaffitári í Kringlunni kl. 09:30 og fáum okkur morgunkaffi og spjöllum um allt milli himins og jarðar.   Þessir viðburðir eru í umsjá Jóns Karlssonar og Hákons Aðalsteinssonar.
11.05.2014
Skýrsla stjórnar starfsáriđ 2013/2014
Formađur flytur skýrslu stjórnar á ađalfundi í janúar 2014.

Ársskýrla stjórnar Norðfirðingafélagsins fyrir árið 2013

Á aðalfundi félagsins í fyrra gekk úr stjórn Íris Másdóttir sem hafði gengt gjaldkerastöðunni með miklum sóma og kann stjórnin henna miklar þakkir fyrir hennar framlag. Aðrir héldu áfram í stjórn.  Á fyrsta fundi stjórnar var skipt með sér verkum:

Guðrún K Einarsdóttir, formaður

Sigurður Þorbergsson ritari

Þorsteinn Sigurðsson stjórnandi heimasíðu félagsins

Meðstjórnendur: Jón Karlsson,Sveinn Ásgeirsson,Vildís Björgvinsdóttir og Vilmundur Tryggvason.

Í varastjórn félagsins voru:   Birna Hilmarsdóttir,Davíð Samúelsson og Gunnar Karl Guðmundsson. Á miðju ári ákvað Sveinn Ásgeirsson að draga sig úr stjórn vegna anna.

Atburðir á vegum félagsins voru eftirtaldir á árinu 2013:

 

Aðalfundur og Sólarkaffi  félagsins var haldin þann 20. janúar 2013 og að venju komu gestir með miklar kræsingar á kaffiborðið ásamt sólarpönnukökunum ómissandi. Félagsgjöldin voru hækkuð um 100 kr og var það aðallega til að hafa það ekki sama gjald og dagatalið því erfitt reyndist að greina á milli hvort verið var að greiða fyrir dagatal eða félagsaðild. Um tónlistaratriði sáu feðginin Sigurður Þorbergsson og Hannah Rós dóttir hans, en þau spiluðu saman 4 lög á pianó og trompet. Formaður las upp ljóð úr hefti sem félaginu hafði áskotnast eftir Guðrúnu Gísladóttur sem heitir Norðfjarðarlofsöngur og fleiri ljóð frá árunum 1945-1947 en þar komu fram kunnir staðhættir og persónur úr firðinum okkar fagra.

Óma Íslandslög, "Manstu gamla daga"  með Kór Fjarðabyggðar ásamt hljómsveit komu og héldu tónleika í Fella- og Hólakirkju í febrúar. Þessi atburður var ekki á vegum félagsins en segja má að þetta hafi verið stór og mikil Norðfirðingasamkoma og sá félagið um að auglýsa þetta á meðal sinna félagsmanna og var þetta mjög vel sótt  og frábær skemmtun.

Laugardagskaffi Norðfirðingafélagsins í umsjón þeirra félaga Jóns Karlssonar og Hákonar Aðalsteinssonar var á sínum stað allt árið og var reglulega vel sótt, bæði brottfluttir Norðfirðingar sem og heimamenn í bæjarferð lögðu leið sína í Kringluna til að hitta sveitunga sína og spjalla yfir kaffibolla. Laugardagskaffið var í gangi allt sumarið líka og ber að þakka þeim félögum fyrir þeirra framlag. Á síðasta laugardagskaffi, því fyrsta á árinu 2014 mættu um 40 manns.

Þorrablót Norðfirðingafélagsins var haldið í Hlégarði í Mosfellsbæ þann 4. febrúar, eða þriðju helgina í þorra. Dagsetningin var valin með hliðsjón af blótunum heima í Neskaupstað og er þetta í annað sinn sem félagið stendur fyrir þorrablóti. Á síðasta ári reyndum við aðra aðferð við miðasöluna, þ.e. seldum miðana á ákv. stað og stundu. Það gafst ekki nægilega vel og hefur því verið ákveðið að selja miðana eingöngu á Sólarkaffi félagsins og á netinu og verður netfangið; nobbarar@gmail.com  notað þar sem þorrablótsnefnd óskar eftir því að ef hópar vilja sitja saman við borð að viðkomandi sendi inn nafnalista á netfangið. Þetta gerum við til að reyna að verða við óskum allra og til að forðast misskilning. Þeir sem ekki tilheyra hópum lenda samt ekkert einir úti í horni.

Þátttaka var alveg frábær og sóttu 190 manns blótið. Skemmtiatriðin komu að heiman og voru Guðmundur Rafnkell Gíslason og Jón Björn Hákonarson sem ófu saman atriði úr bæði sveitablótinu og kommablótinu og var það mikil skemmtun. Norðfirska hljómsveitin Monó lék undir og fyrir dansi og svo var að sjálfsögðu minni karla og minni kvenna sem Solla á Tröllanesi og Draupnir Draupnis fluttu. Davíð Samúelsson og Kristján Högnason sáu um stjórnina á blótinu.

Hugmynd stjórnar er að stofna sérstaka þorrablótsnefnd þar sem einn fulltrúi úr stjórn ynni með nefndinni, og legg ég til að þeim lið verði bætt inn á aðalfundinn á hverju ári. Sem sagt að kjósa í þorrablótsnefnd og hefur nefndin þá ár til að undirbúa sig og jafnvel fá fleiri með sér í nefndina, og legg ég til að við byrjum strax á þessum aðalfundi.

Spurningakeppni átthagafélaganna var nýtt af nálinni á liðnu ári hjá félaginu okkar. Formanni barst bréf frá varaformanni Barðstrendingafélagsins í Reykjavík og var félaginu boðið að vera með í að endurvekja spurningakeppni átthagafélaganna sem haldin var í nokkur ár kringum aldamótin síðustu. Ákveðið var að slá til og taka þátt. Umsjónarmenn fyrir hönd félagsins voru Vilmundur Tryggvason úr stjórn og Gísli Gíslason. Þeir bjuggu til keppnislið sem í voru: Hugi Þórðarson, Steinunn Þóra Arnadótti, Lára Guðlaug Jónasdóttir og Heiða Dögg Liljudóttir. Hugi veiktist fyrir fyrstu keppni og mættu stelpurnar 3 til leiks og gerðu sér lítið fyrir og unnu andstæðinga sína og eftir það var ekki aftur snúið. Þannig fór að þær fóru alla leið í úrslitakeppnina en þurftu að lúta í lægra haldi í úrslitaviðureigninni gegn Barðstrendingarfélaginu. Stjórn Norðfirðingafélagsins er afskaplega stolt af  “stelpunum okkar” og afar þakklát Villa Tryggva og Gísla Gísla fyrir þeirra vinnu varðandi keppnina. Við viljum hvetja Norðfirðinga til að mæta í Breiðfirðingabúð í Skeifunni þegar liðið okkar mætir til keppni í ár og hvetja það til dáða. Það mun það verða auglýst á heimasíðu félagsins og á facebooksíður spurningarkeppninnar, en það verður að segjast eins og er að mæting okkar fólks var mjög dræm og því er bara að bæta það í ár. Keppnin var sýnd á sjónvarpsstöðinni INN og er von að svo verði einnig í ár.

Vorferð félagsins :

Árið 2012 bauð félagið í fyrsta sinn upp á vorferð og þar sem það mæltist svo vel fyrir var ákveðið að endurtaka leikinn og þann 11.maí átti að fara í ferð austur fyrir Hellisheiði og skoða Eyrarbakka og nágrenni. Því miður þá var þátttaka það dræm að fella þurfti niður ferðina.

 

Sjómannadagskaffi félagsins var á sínum stað á Sjómannadaginn. Þar sem skipt var um eigendur á Kaffi Reykjavík var ákveðið að breyta um staðsetningu. Kaffið var haldið á Veitingastaðnum Mar niður við höfn, þessi staður er í eigu Grétars Sveinssonar og fjöldskyldu en Grétar er sonur Þóru Jakobs frá Strönd og Sveins Jónssonar frá Tröllanesi. Eins og venjulega var mjög góð mæting eða um 100 manns en því miður var staðurinn of lítill fyrir okkur og fengu ekki nærri allir sæti en það var gaman að sjá Norðfirðinga að heiman sem voru staddir í höfuðborginni leggja leið sína til okkar. Stjórn Noðfirðingafélagsins vill koma þökkum á framfæri til Kristjáns Kristjánssonar á Sjónarhól sem hefur boðið okkur að hafa Sjómannadagsblað Austurlands til sölu á þessum degi og erum við ákaflega þakktlát fyrir að geta nálgast blaðið og boðið Norðfirðingum á stór Reykjavíkursvæðinu það til sölu á þessum degi. 

Heimasíða Norðfirðingafélagsins  þjónar stóru hlutverki á tímum tækninnar og æ fleiri verða tölvuvæddir og nýta sér þessa þægilegu tækni.  Á heimasíðu félagsins, sem Þorsteinn Sigurðsson stýrir með miklum sóma, er hægt að skrá sig í félagið ásamt því að fylgjast með því sem er og hefur verið að gerast í félaginu. Stjórnin vill hvetja þá sem ekki enn hafa skráð sig í félagið að láta verða að því. Það skiptir miklu máli fyrir svona félagasamtök að hafa marga félagsmenn því margt smátt gerir eitt stórt eins og við vitum og var ákveðð af stjórn félagsins að reyna að gera allt til að fjölga félagsmönnum í okkar góða félagi.  Félagið hefur einnig tekið facebook í sína þjónustu og er með síðu þar sem allir viðburðir eru einnig auglýstir.

Menningarkvöld Norðfirðingafélagsins   var haldið miðvikudagskvöldið 20. nóvember í Fella- og Hólakirkju.                                                                                                                   Bjarki Bjarnason sem er ættaður er frá Kirkjubóli kom og kynnti bók sína: Sérðu harm minn sumarnótt og var einnig með hana til sölu. Þórður Júlíusson, eða Doddi á Skorrastað kom ásamt Theodóru I Alfreðsdóttur konu sinni og flutti okkur skemmtilegan fyrirlestur ásamt myndasýningu um fyirrtæki sitt Skorrahesta sem þau hafa byggt upp á undanförnum árum.  Tónlistaratriði kvöldsins var í umsjón Ásrúnar Davíðsdóttur Norðfirðings og aðstoðarskólastjóra og kennara við Söngskóla Reykjavíkur, en ung stúlka, Kristín Einarsdóttir Mäntylë, sem hafði tekið burtfararpróf þann sama dag kom og söng fyrir okkur við undirleik Hólmfríðar Sigurðardóttur og var sá fluttningur hreint frábær.  Á menningarkvöldinu var félaginu gefin falleg gjöf, Þórrunn Jónsdóttir hafði skorið út gestabók með merki félagsins í og kunnum við henna bestu þakkir fyrir og mun þessi bók eiga  eftir að fylgja félaginu um langa hríð, og var hún tekin í notkun strax þetta kvöld. Að endingu spilaði Hólmfríður undir fjöldasöng þar sem “þjóðsöngur Norðfirðinga” Ó blessuð vertu sumarsól, eins og Jón Karlsson segir, var sunginn af viðstöddum.  Á eftir var boðið uppá kaffi og konfekt í boði Freyju og spjallað saman. Stjórn Norðfirðingafélagsins vill þakka þeim sem fram komu kærlega fyrir og gestum fyrir komuna.

Bæna og kyrrðarstund Norðfirðingafélagsins  var haldin í Fella – og Hólakirkju þann 20. desember að venju. Yfir 80 manns mættu og áttu góða stund saman með séra Svavari Stefánssyni. Barnabarn Ollu Árna Dan, María Jónsdóttir kom og flutti okkur tónlistaratriði. Að lokum sungu allir saman jólasálminn Heims um ból. Eftir þessa yndislegu stund var boðið upp á kaffi og konfekt í boði Freyju og kann félagið þeim bestu þakkir fyrir stuðninginn. Við viljum nota tækifærið og þakka sr Svavari fyrir ómetanlegan hlýhug í garð okkar Norðfirðinga og fyrir þessa fallegu stund á þessum degi sem skiptir okkur öll svo miklu máli og er greypt i huga okkar allra.

Dagatal félagsins  kom út á menningarkvöldinu og var sent til félagsmanna í kjölfarið. Því miður var þessi dagur, aðalfundur og sólarkaffi vitlaust dagsettur í Dagatalinu og byðjumst við velvirðingar á því. Þema dagatalsins 2014 eru samgöngur í gegn um tíðina. Dagatalanefnd félagsins er öllum félagsmönnum opin og vil ég nota tækifærið og bjóða þá sem hafa áhuga á að vinna að dagatali félagsins velkomna í þá nefnd. Það þarf ekki að kjósa það á aðalfundi, nóg er að láta okkur í stjórninni vita.Stjórnin vill koma á framfæri sérstöku þakklæti til Guðmundar Sveinssonar og Hlyns Sveinssonar fyrir þeirra aðkomu að dagatalinu við myndasöfnun og myndatökur.

Norðfirðingur – fréttablað félagsins  kom út 3 sinnum á árinu eins og í fyrra og má nálgast hann á heimasíðu félagsins. Stjórnin vill beina þeim tilmælum til félagsmanna að ef skipt er um heimilisfang að tilkynna það til vefstjóra, Þorsteins, svo Norðfirðingur rati heim til viðkomandi.

Sem hluta af skýrslu stjórnar leggjum við til að félagsgjaldið verði áfram óbreytt, eða 1600 krónur.

Vildís Björgvinsdóttir hefur ákveðið að hætta í stjórn á þessum aðalfundi og einnig hefur Davíð Samúelsson ákveðið að hætta í varastjórn og vil ég fyrir hönd Norðfirðingafélagsins og stjórnarinnar þakka þeim fyrir gott starf og samvinnu í stjórninni. Aðrir stjórnarmeðlimir bjóða sig fram til áframhaldandi setu.

Þeir sem hafa áhuga á að koma inn og starfa með okkur eru boðnir hjartanlega velkomnir, hvort sem er í aðal- eða varastjórn.

Að lokum vil ég þakka stjórn Norðfiðingafélagsins fyrir gott samstarf á árinu og félagsmönnum fyrir góðar móttökur á viðburðum félagsins á árinu 2013.

Fyrir hönd stjórnar starfsárið 2013

Guðrún K Einarsdóttir

Formaður