stjorn@nordfirdingafelagid.is     822-1709
   
Leturstćrđ
Laugardagskaffi
Fyrsta laugardag í mánuði hittumst við í Kaffitári í Kringlunni kl. 09:30 og fáum okkur morgunkaffi og spjöllum um allt milli himins og jarðar.   Þessir viðburðir eru í umsjá Jóns Karlssonar og Hákons Aðalsteinssonar.
22.08.2012
Tónleikar í Salnum

Laugardaginn 15. september næstkomandi verða Norðfirskir tónlistarmenn með tónleika í Salnum Kópavogi.  Nokkrir gullmolar íslenskrar dægurlagasögu í flutningi söngvaranna Erlu Dóru Vogler og Bjarna Freys Ágústssonar (Bjarna Agga). Tónlist frá 5. 6. og 7. áratug síðustu aldar verður leikin og tíðarandinn fangaður með stæl.

Bjarni Freyr Ágústsson er félögum í Norðfirðingafélaginu af góðu kunnur, en hann hefur verið í stjórn félagsins og spilað og sungið á mörgum uppákomum á vegum félagsins á síðastliðnum árum.  Hann hefur verið í sveitaballabransanum í mörg ár og einnig lokið námi við Tónlistarskólann í Reykjavík í Trompetleik. Bjarni er fjölhæfur tónlistarmaður sem hefur tekið þátt í ýmsum verkefnum. Verkefnalisti hans spannar allt frá Freddy Mercury til Raggi Bjarna. Bjarni mun að sjálfsögðu munda trompetinn á tónleikunum og skilar hann sönghlutverkinu frábærlega eins og alltaf.

Erla Dóra Vogler er klassískt menntuð söngkona sem lærði söng í Vín en er mikill aðdáandi íslenskra dægurlaga. Hún kom þessu verkefni af stað ásamt Ágústi Ármann Þorlákssyni og er þetta annað árið sem Dægurlagadraumar eru fluttir, en þó með öðrum lögum þetta árið, enda af nógu að taka. Erla kemur verulega á óvart í þessari tegund tónlistar og er greinilega fjölhæf söngkona.

 Hljómsveitina skipa:

Jón Hilmar Kárason - Gítar, Daníel Arason - Píanó og Harmónikka, Þorlákur Ægir Ágústsson - Bassi og Marías Benedikt Kristjánsson - Trommur

Að sjálfsögðu þarf varla að taka fram að Norðfirðingar eru í öllum stöðum utan Erlu Dóru söngkonu sem sótt var til Egilsstaða og afsannar kenningu ágæts Norðfirðings að aldrei hafi fæðst músíkalskur maður á Héraði. 

Miðasala er á midi.is og verðið er frábært! Aðeins kr 2500.-

 Á Facebook má finna ummæli áhorfenda frá tónleikum hópsins í sumar:

„Þetta er einhver frábærasta skemmtun sem ég hef farið á. Kærar þakkir fyrir mig“ Ína Dagbjört Gísladóttir

 „Takk fyrir frábæra skemmtun. Þetta var algjört æði og litli strumpurinn minn skemmti sér ekkert síður en mamma sín ;) “ Sigríður Inga