stjorn@nordfirdingafelagid.is     822-1709
   
Leturstćrđ
Laugardagskaffi
Fyrsta laugardag í mánuði hittumst við í Kaffitári í Kringlunni kl. 09:30 og fáum okkur morgunkaffi og spjöllum um allt milli himins og jarðar.   Þessir viðburðir eru í umsjá Jóns Karlssonar og Hákons Aðalsteinssonar.

Saga félagsins

Norðfirðingafélagið.

 

   Á góðvinafundum á heimili Elsu Christensen og Svavars Lárussonar fyrir rúmum 40 árum var oft rætt um að tímabært væri að stofna félag brottfluttra Norðfirðinga.  Til tíðinda dró þegar sent var í pósti fundarboð til á annað hundrað Norðfirðinga á höfuðborgarsvæðinu. Bréfið var undirritað af þeim Friðjóni Guðröðarsyni og Svavari Lárussyni.  Nær 150 manns mættu á fyrsta fundinn. Áhugi var greinilega mikill.

   Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörin : Friðjón Guðröðarson, Svavar Lárusson, Ragna Jónsdóttir, Anna Jónsdóttir og Birgir D. Sveinsson.  Varamenn voru Guðlaugur Stefánsson og Eyþór Einarsson.

   Starf félagsins mótaðist fljótt og um árabil voru aðalfundir á haustdögum, sólarkaffi í byrjun febrúar og árshátíð eða Þorrablót í marsmánuði. Þegar á fyrsta starfsári ákvað stjórnin að leita samninga við Björn Björnsson um kaup á mynda og filmusafni hans.

   Á aðalfundi 7. nóvember 1969 var eftirfarandifært til bókar : Í skýrslu formanns kom ma. fram að félagið hefur samið um kaup á öllu mynda og filmusafni Björns Björnssonar ljósmyndara, þess er á einhvern hátt er viðkomandi Norðfirði. Er Björn um þessar mundir að hefja gerð myndanna. Filmusafnið verður afhent af Birni fráföllnum. Það er skoðun forsvarsmanna Norðfirðingafélagsins að hér sé um að ræða mjög merkar heimildir varðandi atvinnulíf, þróun bæjarins og fleira skráðar í formi ljósmynda allt frá árinu 1915. Telur stjórn félagsins að myndasafn þetta þurfi að vera til sem heild og hefur í því sambandi komið fram sú hugmynd að safnið verði varðveitt í sérstakri deild byggðarsafns á Norðfirði er væntanlega mun rísa á næstu árum.

   Þetta framtak félagsins hlaut góð viðbrögð í heimabyggðinni og varð til þess að styrkja tengslin mjög strax í upphafi. Um það bera fréttapistlar og umfjöllun í Austurlandi ljóst vitni.  

   Um árabil voru góðir vinir að austan heiðursgestir á samkomum félagsins og fluttu með sér fréttir og gamanmál sem féllu í góðan jarðveg. Tilgangur með starfi átthagafélaga er að rækta tengsl þeirra brottfluttu og til rótanna í heimabyggð. Þetta hefur félagið okkar gert með sóma.

   Frá árinu 1977 hefur félagið gefið út fréttabréfið Norðfirðing. Í ávarpi formanns Garðars Sveins Árnasonar segir: Þetta litla blað sem þið nú fáið í hendur hefur það hlutverk eitt að flytja ykkur fréttir af því sem félagið fyrihugar að gera. Blaðið er hin besta heimild um starf félagsins í rúm 30 ár og verður væntanlega aðgengilegt á nýrri heimasíðu.

Félagið hefur í áranna rás sýnt hug sinn til heimabyggðar með góðum gjöfum svo sem myndasafni Björns Björnssonar og til sjúkrahússins. Ný á 40 ára afmæli félagsins er í undirbúningi að gefa vandaða útsýnisskífu með upplýsingum um kennileiti á Norðfirði.

   Árið 2000 gáfu afkomendur Ragnheiðar Stefánsdóttur og Herberts Jónssonar Norðfirðingafélaginu íbúð í Neskaupsstað. Félagið leigði hana til félagsmanna í nokkur ár en árið 2006 var ákveðið að selja hana. Söluandvirðið er nú kjölfestan í fjármálum félagsins.

   Síðastliðin 6 ár hefur Norðfirðingafélagið staðið fyrir útgáfu á dagatali og notið til þess styrki úr heimabyggð. Þetta er frábært framtak og hefur vakið verðskuldaða athygli. Vonandi verður framhald á þessari útgáfu.

Birgir D. Sveinsson, Jón Karlsson.

 

Aðalfundur og Sólarkaffi 2008. Hólmfríður Guðjóns kynnir dagatal félagsins.
Gísli Gísla Begga stjórnaði fundi svo vel að hann var kjörinn formaður félgasins.